Hoppa yfir valmynd
Úrskurðir á sviði samgöngumála

Úrskurður í máli nr. SRN18090030

Ár 2019, þann 24. júní, er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu kveðinn upp svohljóðandi

ú r s k u r ð u r

í máli nr. SRN18090030

Kæra X

á ákvörðun

Samgöngustofu

 

I.      Kröfur og kæruheimild

Þann 7. september 2018 barst ráðuneytinu kæra X (hér eftir X), kt. 000000-0000, á ákvörðun Samgöngustofu (hér eftir nefnd SGS) frá 30. ágúst 2018 um að synja umsókn hans um forskráningu ökutækis af gerðinni Mercedes-Benz SLK R170. Af kæru verður ráðið að X krefjist þess hin kærða ákvörðun verði felld úr gildi og SGS verði gert að forskrá ökutækið.

Kæruheimild er í 18. gr. laga um Samgöngustofu, stjórnsýslustofnun samgöngumála, nr. 119/2012.

 

II.        Málsatvik og málsmeðferð ráðuneytisins

Samkvæmt fyrirliggjandi gögnum sótti X um forskráningu bifreiðar af gerðinni Mercedes Benz SLK R170 með umsókn dags. 2. ágúst 2018. Leiddi skoðun gagna sem fylgdu umsókninni til þess að SGS synjaði X um forskráningu ökutækisins með ákvörðun dags. 30. ágúst 2018.

Ákvörðun SGS var kærð til ráðuneytisins með tölvubréfi X mótteknu 7. september 2018.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 18. september 2018 var SGS gefinn kostur á að koma að sjónarmiðum sínum varðandi kæruna. Bárust þau sjónarmið ráðuneytinu með bréfi SGS mótteknu 13. desember 2018.

Með bréfi ráðuneytisins dags. 29. janúar 2019 var X kynnt umsögn SGS og gefinn kostur á að koma að frekari athugasemdum vegna málsins. Engar athugasemdir bárust.

Með bréfi dags. 1. mars 2019 tilkynnti ráðuneytið X að gagnaöflun væri lokið og málið væri tekið til úrskurðar.

 

III.      Málsástæður og rök X

Í kæru kemur fram að X hafi keypt umrætt ökutæki í Póllandi og sótt um forskráningu þess hjá SGS. Í svörum SGS hafi komið fram að forskráning fengist ekki þar sem um væri að ræða tjónaökutæki. Kveðst X hafa átt ökutækið í meira en fjögur ár. Þá lýsir X ástandi ökutækisins og hvernig hann hafi unnið að endurbótum þess. Telur X ökutækið í góðu ástandi og muni hann aðeins nota það stöku sinnum hér á landi.

 

IV.      Ákvörðun og umsögn SGS

Í ákvörðun SGS kemur fram að í ákvæði 03.05 (2) reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004 sé fjallað um skráningarviðurkenningu notaðra ökutækja. Komi þar fram að SGS meti hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu séu fullnægjandi. Hafi ákvæðið verið túlkað svo að þegar framlögð gögn ökutækis fela í sér athugasemd um að viðkomandi ökutæki hafi lent í tjóni sé það takmörkun og sé forskráning þá óheimil. Sé framangreint áréttað í skráningarreglum SGS sem settar eru á grundvelli 5. mgr. 4. gr. reglugerðar um skráningu ökutækja nr. 751/2003. Þar komi fram að ökutæki geti ekki fengið skráningu hér á landi á grundvelli slíkra gagna. Í evrópska skráningarkerfisgagnagrunninum komi fram að ökutækið sem um ræðir sé tjónaökutæki. Því sé um að ræða takmörkun á skráningu ökutækisins þar sem skýrslan sé í andstöðu við þær kröfur sem gerðar eru til forskráningar ökutækja hér á landi, sbr. reglugerð nr. 822/2004. Því beri að synja um forskráningu ökutækisins.

Í umsögn SGS kemur fram að samkvæmt 4. gr. tilskipunar ráðsins 1999/37/EB frá 29. apríl 1999, sem innleidd var með reglugerð nr. 691/2006 um breytingu á reglugerð um skráningu ökutækja nr. 751/2003, komi fram að aðildarríki skuli viðurkenna skráningarskírteini sem gefin eru út í öðrum aðildarríkjum, þegar um er að ræða að bera kennsl á ökutæki í ferðum milli landa eða endurskráningu þess í öðru aðildarríki. Samkvæmt gr. 03.05 (2) í reglugerð nr. 822/2004 meti SGS hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu séu fullnægjandi. Það verklag hafi verið við lýði að SGS fletti upp í samevrópska skráningargagnagrunninum Eucaris öllum notuðum ökutækjum sem stofnuninni berast til skráningar, að undanskildum nýjum gerðarviðurkenndum ökutækjum frá umboðum. Sé það gert til athugunar á því hvort og þá hvernig ökutækið hafi verið skráð. Meðal gagna sem X skilaði inn með umsókn hafi verið pólskt skráningarskírteini án athugasemda. Samkvæmt 4. gr. áður nefndrar tilskipunar beri Íslandi að viðurkenna pólsk skráningarskírteini þar sem Pólland sé innan evrópska efnahagssvæðisins. Við uppflettingu í gagnagrunni Eucaris hafi hins vegar fundist upplýsingar þess efnis að skráningaryfirvöld á Ítalíu hafi þann 24. maí 2010 afskráð ökutækið á grundvelli eyðileggingar. Þær upplýsingar stangist á við skráningarskírteinið frá pólskum yfirvöldum. Í ljósi þeirrar skyldu sem hvíli á SGS um að meta innsend gögn við skráningu ökutækja og sannreyna þau skjöl sem lögð eru fram, m.a. með uppflettingu í gagnagrunni Eucaris, hafi stofnunin talið að ekki væri rétt að líta framhjá slíkum grundvallarupplýsingum og því væri ekki stætt að skrá ökutækið í íslenska ökutækjaskrá. Í kjölfarið hafi SGS leitað eftir afstöðu bæði pólskra og ítalskra yfirvalda. Ekki hafi borist svör frá pólskum skráningaryfirvöldum en ítölsk skráningaryfirvöld hafi hins vegar staðfest umrædda skráningu ökutækisins í Eucaris. Þá hafi SGS leitað eftir afstöðu Norðurlandanna til málsins. Af þeim svörum megi ráða að ákvörðun SGS sé í samræmi við verklag á Norðurlöndum um að meta slík mál á heildstæðan hátt. Þá komi fram í svörum frá Norðurlöndum að hafi ríki undir höndum misvísandi upplýsingar um ökutæki, þar sem því fylgi skráningarskírteini án athugasemda frá ríki A en það ökutæki hafi áður verið afskráð í ríki B á grundvelli eyðileggingar, hafi ríkið heimild til að hafna beiðni um skráningu ökutækis berist ekki frekari upplýsingar frá skráningaryfirvöldum viðeigandi ríkja.

 

V.        Niðurstaða ráðuneytisins

Til umfjöllunar er ákvörðun SGS um að synja umsókn X um forskráningu ökutækis af gerðinni Mercedes-Benz SLK R170. Var ástæða synjunarinnar sú að skráningaryfirvöld á Ítalíu hafi þann 24. maí 2010 afskráð ökutækið á grundvelli eyðileggingar, en þær upplýsingar stangist á við skráningarskírteini frá pólskum yfirvöldum.

Um skráningarviðurkenningu notaðra ökutækja er fjallað í ákvæði 03.05 reglugerðar um gerð og búnað ökutækja nr. 822/2004. Kemur þar fram í ákvæði 03.05(4) að meðfylgjandi umsókn um skráningarviðurkenningu skuli fylgja frumrit erlends skráningarskírteinis/titilsbréfs sem veitir heimild til notkunar án takmörkunar í landinu þar sem skráningarskírteinið/titilsbréfið er gefið út. Þá þurfa einnig að fylgja gögn um staðfestingu á fyrsta skráningardegi og/eða framleiðsluári komi þessi atriði ekki fram í skráningarskírteininu/titilsbréfinu. Séu gögn misvísandi sem SGS eru látin í té af umsækjanda, flutningsaðila eða tollstjóra gildir liður 03.05(2).

Ráðuneytið tekur fram að frumrit titilsbréfs ökutækis skuli bera með sér að veitt sé heimild til notkunar ökutækis án takmörkunar. Beri að túlka ákvæðið svo að þegar titill ökutækis felur í sér athugasemd um að viðkomandi ökutæki hafi lent í tjóni sé það takmörkun á titli ökutækis. Er ákvæðið afdráttarlaust hvað þetta varðar og í slíkum tilvikum er forskráning ekki heimil. Í máli því sem hér er til umfjöllunar liggur hins vegar fyrir að umsókn um forskráningu ökutækisins fylgdi pólskt skráningarskírteini án athugasemda. Í gagnagrunni Eucaris fundust hins vegar gögn þess efnis að skráningaryfirvöld á Ítalíu hafi afskráð ökutækið þann 24. maí 2010 á grundvelli eyðileggingar. Stangast þær upplýsingar þannig á við hið pólskra skráningarskírteini og eru gögn málsins þannig misvísandi, sbr. liður 03.05(2) reglugerðarinnar.

Samkvæmt ákvæði 03.05(2) reglugerðarinnar er það hlutverk SGS að meta hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu eru fullnægjandi. Hefur SGS leitast við að afla upplýsinga frá bæði pólskum og ítölskum yfirvöldum varðandi skráningu ökutækisins í Eucaris gagnagrunninn. Fékkst þar staðfesting frá ítölskum yfirvöldum þess efnis að ökutækið hafi verið afskráð þann 24. maí 2010, en ekki bárust frekari gögn frá pólskum yfirvöldum.

Þar sem gögn þau er varða umrætt ökutæki eru misvísandi er það hlutverk SGS að meta hvort gögn varðandi skráningarviðurkenningu þess séu fullnægjandi, sbr. ákvæði 03.05(2) reglugerðar nr. 822/2004. Í ljósi þeirra gagna sem liggja fyrir telur ráðuneytið ekki tilefni til að gera athugasemd við það mat SGS að rétt hafi verið að synja umsókn X um forskráningu ökutækisins, enda beri gögnin með sér að ökutækið hafi verið skráð tjónaökutæki í gagnagrunninum Eucaris. Þar sem skráningargögn ökutækisins séu að þessu leyti ekki fullnægjandi verður ekki hjá því komist að staðfesta hina kærðu ákvörðun.

 

Úrskurðarorð:

Staðfest er ákvörðun Samgöngustofu um að synja umsókn X um forskráningu ökutækis af gerðinni Mercedes-Benz SLK R170.

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum